Þróunaráætlun

Í nýrri þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, K64, er horft fram til ársins 2050. Þróunaráætlunin er heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.

Nafnið K64 var valið sem regnhlífarhugtak yfir þann fjölda verkefna sem hrint verður í framkvæmd á næstu árum og áratugum, en nafnið vísar í Keflavíkurflugvöll og þróunarfélagið Kadeco sem og til staðsetningar Suðurnesja á 64. gráðu norðlægrar breiddar.

Frá árinu 2019 hafa íslenska ríkið, Isavia, Reykjanesbær og Suðurnesjabær verið samtaka um að vinna saman að heildstæðri stefnu og framtíðarsýn fyrir landsvæðin í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, leiðir verkefnið fyrir hönd þessara aðila.

Keflavíkurflugvöllur er mikilvægt tæki við þróun byggðar á Suðurnesjum og getur verið drifkraftur fyrir efnahags-, umhverfis- og samfélagslega sjálfbært svæði. Tækifærin við flugvöllinn eru mikil. Staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn orka, sveigjanleiki og aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins eru sömuleiðis mikilvægir þættir í því að skapa einstök tækifæri á svæðinu. Rík áhersla er lögð á að svæðið þróist í takt við samfélagið í kring.

Þróunaráætlunin nær til ársins 2050 en fyrstu skrefin verða tekin strax. Má þar nefna þróun grænna iðngarða við Helguvíkurhöfn, bættar almenningssamgöngur á milli flugvallar og höfuðborgar, tilraunir með eftirspurnardrifnar almenningssamgöngur og uppbygging íbúða á Ásbrú.

Hægt er að kynna sér nýja þróunaráætlun nánar á vef verkefnisins, www.k64.is


Ertu með spurningar?