Þróunaráætlun

Í þróunaráætlun nærumhverfis Keflavíkurflugvallar verður horft fram til ársins 2050. Mikilvægt er að skipulagsyfirvöld og aðrir hagsmunaaðilar hafi augun á heildarmyndinni og sameinist um það skipulag sem lagt verður fram í þróunaráætlun.

Tækifærin við flugvöllinn eru mikil. Staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn orka, sveigjanleiki, aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins eru sömuleiðis þættir sem gegna æ stærra hlutverki í samskiptum og viðskiptum þjóða.

Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur skapað fjölda starfa og tækifæra á svæðinu, ekki aðeins í beinum flugtengdum störfum heldur hafa samfélög notið góðs af auknum viðskiptum tengdum ferðamönnum og starfsfólki fyrirtækja flugvallarins. Bílaleigum fjölgaði og hótel opnuðu, ekki eingöngu í miðborgum og -bæjum heldur á Ásbrú, við Reykjanesbraut og víðar.

Samkomulagið sem undirritað var í desember 2019 milli ríkis, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia sendir skýr skilaboð um að horft skuli til heildarhagsmuna við þróun svæðisins. Tækifærin blasa við og með vandaðri, framsýnni áætlanagerð og góðu samstarfi verður hægt að nýta það besta sem svæðið hefur upp á að bjóða. Keflavíkurflugvöllur er mikilvægt tæki við þróun byggðar á Suðurnesjum og á sama tíma drifkraftur fyrir efnahags-, umhverfis- og samfélagslega sjálfbært svæði.

Forvali fyrir samkeppni um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll fram til ársins 2050 var hleypt af stað í maí 2021 á útboðsvef Evrópska efnahagssvæðisins. Mikill áhugi var á samkeppnisútboðinu og alls bárust umsóknir um þátttöku frá 25 alþjóðlegum teymum. Þrjú teymi, leidd af Arup, Jacobs og KCAP, komust áfram í lokaáfanga samkeppninnar og voru valin til að skila mótuðum tillögum byggðum á efnahagslegri greiningu. Í desember 2021, eftir að valnefnd skipuð fagaðilum hafði farið yfir tillögurnar, var tilkynnt um niðurstöður samkeppnisútboðsins en það var alþjóðlega hönnunar- og skipulagsstofan KCAP sem varð hlutskörpust.

Ertu með spurningar?