Reykjanes

Reykjanesið býður upp á mikil tækifæri fyrir fjárfesta, innlenda sem erlenda. Nálægð við alþjóðflugvöll, nálægð við höfuðborgina og gott framboð af grænni orku skipta þar einna mestu máli.  

Svæðið hefur þegar laðað að sér fjölda erlendra fjárfesta enda hefur jafnt og þétt byggst upp mikil þekking og reynsla á sviði flutninga, nýtingu jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa, heilsuferðamennsku, upplýsingatækni, líftækni, heilsuvöruframleiðslu og sjávarafurða svo dæmi séu tekin. Rannsóknir, menntun og frumkvöðlastarfsemi hafa leitt af sér spennandi fyrirtæki á þessum sviðum.

Flutningar og samgöngur

Svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll, mitt á milli stærstu markaðssvæða heims; Evrópu, Asíu og Ameríku, getur orðið lykilstaðsetning fyrir alþjóðleg fyrirtæki í leit að heppilegum stað fyrir bækistöðvar sínar. Einnig er stór iðnaðarhöfn í Helguvík sem býður upp á mikla möguleika í sjóflutningum.

Sjávarfang

Á Reykjanesi er að finna stór sjávarútvegsfyrirtæki, öflug fiskeldisfyrirtæki og fjölmargar fiskvinnslur. Einnig eru mörg frumkvöðlafyrirtæki staðsett á svæðinu, sem þróa nýjar vörur og lausnir á sviði sjávarútvegs, en þau njóta aðgangs að rannsóknarsetri Keilis og þeirrar sérþekkingar sem þar er að finna. Fyrir verslun með sjávarfang skiptir nálægð við alþjóðaflugvöll höfuðmáli varðandi flutning á ferskum afurðum.

Líftækni

Mikil þekking á nýtingu náttúruauðlinda, sérstaklega sjávarfangi og jarðvarma, hefur byggst upp á Reykjanesi. Þar er til staðar tækniklasi tengdur jarðvarma en hann samanstendur af fyrirtækjum sem framleiða orku úr jarðvarma, nýta græna orku og bæta nýtingu á orkunni með einhverjum hætti. Þessi tækniþekking hefur einnig leitt af sér spennandi þróun og framleiðslu á lífrænum heilsu- og snyrtivörum.

Upplýsingatækni

Fyrirtæki í upplýsingaiðnaði hafa laðast að Reykjanesi og eru nú fjögur gagnaver starfandi á Ásbrú, þar á meðal alþjóðlegt gagnaver Verne Global. Stjórnendur þess nefna þrjá lykilþætti sem réðu staðsetningunni; stöðuga og næga orku, kröftugt samgöngunet til og frá landinu og sjálfbærar orkulindir. Gagnaverin eru öll knúin grænum, endurnýjanlegum orkugjöfum og sérhönnuð til að nýta vindkælingu á svæðinu.

Ferðaþjónusta

Reykjanesið er einstakt þegar kemur að jarðfræði og jarðsögu, en Reykjanesskaginn hlaut vottun sem Unesco Global Geopark árið 2015 og er nú hluti af verndaráætlun Unesco. Á Reykjanesi er fjöldi heillandi ferðamannastaða, meðal annars heimsþekktar náttúruperlur eins og Bláa lónið og fleiri áhugaverð háhitasvæði. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið hratt undanfarin ár og nýjir möguleikar opnast, meðal annars hefur heilsutengd ferðaþjónusta verið ört vaxandi á Reykjanesi.

No items found.

Lóðir til úthlutunar

Um er að ræða leigulóðir í eigu Ríkissjóðs Íslands sem leigðar eru til 50 ára. Ársleiga lóðarleigu er 2% af fasteignamati lóðar fyrir atvinnuhúsnæði en 1,5 % af fasteignamati lóðar fyrir lóðir undir íbúðarhúsnæði, en þó að lágmarki 131,5 kr. pr. fermetra samkvæmt byggingarvísitölu desember 2023. Að öðru leyti gildir gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Forleiga lóða

Samræmdar reglur gilda um heimildir Kadeco til að gera samkomulag um forleigurétt við leigutaka lóða á starfssvæði Kadeco, annars vegar í lóðarleigusamningum og hins vegar í sérstöku samkomulagi vegna aðliggjandi lóða. Lesa má nánar um verklagsreglur um forleigurétt hér.

Ertu með spurningar?