June 10, 2020
2/12/2020

Nýtt skeið hafið í starfsemi Kadeco

Aðalfundur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, var haldinn áttunda júní síðastliðinn. Við sama tækifæri var haldinn kynningarfundur um breytt hlutverk félagsins og nýjar áherslur varðandi skipulag flugvallarborgar á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar. Á aðalfundinum var kjörinn nýr stjórnarformaður, Steinunn Sigvaldadóttir, en hún tekur við formennsku af Ísaki Erni Kristinssyni sem situr áfram í stjórn sem varaformaður. Einar Jón Pálsson kemur nýr inn í stjórn fyrir hönd Suðurnesjabæjar og tekur við af Ólafi Þór Ólafssyni. Stjórn félagsins skipa auk Steinunnar, Ísaks og Einars, þau Elín Árnadóttir fyrir hönd Isavia og Reynir Sævarsson fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Nýtt hlutverk Kadeco

Kadeco var stofnað árið 2006 með það markmið að hafa umsjón með og selja þær eignir sem Bandaríkin afhentu Íslandi við brottför varnarliðsins. Árið 2019 seldust síðustu eignirnar sem félagið hafði umsjón með. Þar með hófst nýr kafli í sögu félagsins en sumarið 2019 undirrituðu íslenska ríkið, Isavia, Reykjanesbær og Suðurnesjabær viljayfirlýsingu um að vinna saman að skipulagi, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Kjarnaverkefni Kadeco er nú að leiða þetta samstarf um að auka virði svæðisins með skipulagningu nýs þróunarsvæðis  við flugvöllinn.

Öflug miðstöð hagvaxtar og nýsköpunar

Kadeco hefur fengið til liðs við sig ráðgjafa á sviði byggðarþróunar við flugvelli, Max Hirsh. Hirsh er á meðal fremstu sérfræðinga heims í uppbyggingu flugvallarsvæða og hefur komið að ráðgjöf við slíka uppbyggingu víða um heim. „Kadeco stendur frammi fyrir einstöku tækifæri til þess að umbreyta flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar í öfluga miðstöð hagvaxtar og nýsköpunar,“ sagði Hirsh í grein sem hann skrifaði í ársskýrslu Kadeco. „Næstu mánuði munum við nýta okkur fólksmiðaða skipulagsnálgun sem kallast Airport Urbanism (borgarþróun við flugvelli). Með þessari nálgun leggjum við áherslu á þarfir og væntingar fólks sem notar og starfar við flugvöllinn og að sama skapi íbúa sem búa í nágrenni við hann.“  

Alþjóðleg samkeppni um þróunaráætlun

Halldóra Hreggviðsdóttir kynnti vinnu Alta við verklýsingu.

Á kynningarfundinum kynntu Halldóra Hreggviðsdóttir og Árni Geirsson frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta vinnu við verklýsingu fyrir gerð þróunaráætlunar. Alþjóðleg samkeppni um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar verður haldin vorið 2021. „Um er að ræða stórt verkefni sem hefur tækifæri til þess að efla atvinnuuppbyggingu og efnahag hér á þessu svæði og á landinu öllu,“ sagði Halldóra. „Mikilvægt er að Keflavíkurflugvöllur nýtist að fullu sem sá aflvaki sem hann er. Þess vegna skiptir máli að vanda sig vel við undirbúning og skipulag.“

Skýr framtíðarsýn og gott skipulag

„Landið sem umlykur Keflavíkurflugvöll er mjög dýrmætt en land án skipulags er svo til verðlaust,“ sagði Ísak Ernir Kristinsson, fráfarandi stjórnarformaður í ávarpi sínu í ársskýrslu félagsins. „Okkar markmið til næstu áratuga er að fullnýta þau framtíðartækifæri sem við vitum að liggja í þessu landi. Fyrsta skrefið í þá átt er skýr framtíðarsýn og gott skipulag.“

Mikil tækifæri í uppbyggingu

Pálmi Freyr Randversson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Kadeco fyrr á þessu ári, sagði mikil tækifæri liggja í því að byggja upp nærsvæði Keflavíkurflugvallar. „Staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn íslensk orka, sveigjanleiki, aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins í heild eru sömuleiðis þættir sem gegna æ stærra hlutverki í samskiptum og viðskiptum þjóða.“

Um Kadeco:

Kadeco er félag í eigu ríkisins sem hefur það meginmarkmið að leiða formlegt samstarf ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll og nærsvæða. Samstarf þessara aðila er grundvallaratriði til þess að tryggja að til verði heildstæð stefna og framtíðarsýn um þessi verðmætu landsvæði. Slík stefna miðar að því að nýta styrkleika flugvallarins sem drifkraft efnahagslegrar fjárfestingar, atvinnusköpunar og almennra lífsgæða á svæðinu og samfélagsins í heild.

Gott skipulag er forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu landsins og er skipulag á svæðinu því mikilvægur þáttur í vexti atvinnustarfsemi, sköpun starfa og almennri efnahagsþróun. Því þarf að tryggja að skipulag verði heildstætt og land verði nýtt sem best óháð skipulagsmarka sveitarfélaga og Keflavíkurflugvallar.

Kadeco vinnur að framtíðarskipulagi lands á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?