October 28, 2025
28/10/2025

Ásbrú góð staðsetning til að reka fyrirtæki

Fyrirtækin sem starfa á K64 kjarnasvæðunum eru fjölmörg og verkefnin sem þau takast á við ólík. Á næstu misserum munum við birta stuttar umfjallanir um fyrirtækin á svæðinu með það að markmiði að kynna þá fjölbreyttu starfsemi sem finna má á Suðurnesjum.

Íslandshús hannar og framleiðir forsteyptar einingar úr steypu ásamt fylgihlutum. Fyrirtækið hóf starfsemi árið 2012 en þá hafði stofnandi fyrirtækisins Óskar Húnfjörð unnið í þrjú ár að hönnun og þróun forsteyptra eininga til húsbygginga ásamt hópi verkfræðinga.

Úr þessari þróunarvinnu varð til fullhannað heildstætt byggingakerfi húseininga, þar sem einingarnar væru framleiddar eftir fyrirfram ákvörðuðum formstærðum sem síðan yrði hægt að raða saman í mismunandi form bygginga. 

Íslandshús hannar og framleiðir forsteyptar byggingareiningar

Staðsetningin á Ásbrú hentar Íslandshúsum vel

Að sögn Óskars Húnfjörð, stofnanda Íslandshúsa, var það lykilatriði í upphafi rekstursins að fá verksmiðjuhús á Ásbrú að láni hjá Kadeco.

„Án þessa og stuðnings Reykjanesbæjar í formi viðskipta og tiltrúar viðskiptabanka fyrirtækisins, Íslandsbanka, hefði ekki verið mögulegt að koma starfseminni af stað“ segir Óskar.

„Það hentar fyrirtækinu vel að vera staðsett á Ásbrú. Lóðamál hafa verið okkur aðgengileg og samskipti við Kadeco og Reykjanesbæ með ágætum. Hér er stutt í helsta hráefni, steypumöl og sand frá Stapafells- og Lambafellsnámum, sement frá Aalborg sement sem landað er í Helguvík. Vel hefur gengið að fá fólk sem býr á svæðinu til starfa í verksmiðjunni. Þá eru flutningaleiðir greiðar frá Ásbrú og stutt í aðra þjónustu hér heima við og á stór Reykjavíkursvæðinu.“ 

Staðsetning fyrirtækisins á Ásbrú hentar starfseminni vel

K64 mikilvæg leið til uppbyggingar á svæðinu

Að sögn Óskars er K64 þróunaráætlunin mikilvæg til að byggja upp þá möguleika sem skapast af nálægð við alþjóðaflugvöllinn og tryggir markvissa uppbyggingu fjölbreyttrar starfsemi tengdrar honum. Þrátt fyrir að rekstur fyrirtækisins sé ekki mikill gagnvart flugvellinum hefur það fengið að njóta þess að útvega forsteyptar einingar sem tengjast allri þeirri uppbyggingu sem Isavia stendur fyrir. 

„Framtíðarsýn okkar hjá Íslandshúsum er skýr, fyrirtækið mun vaxa áfram með væntingum viðskiptavina okkar. Áframhaldandi vöruþróun og nýsköpun mun áfram tryggja okkur sess sem framleiðanda á hágæðavöru, góðri þjónustu og vinsamlegum samskiptum,“ segir Óskar að lokum.  

Hægt er að lesa meira um starfsemi Íslandshúsa á vef þeirra www.islandshus.is

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?