September 14, 2025
14/9/2025

Fletcher og forsetahjónin heimsóttu Ásbrú

Flugmaðurinn Greg Fletcher, sem nauðlenti Douglas Dakota-flugvél á Sólheimasandi árið 1973 og bjargaði þannig lífi allra um borð, heimsótti í dag sínar fyrrum heimaslóðir á Ásbrú í Reykjanesbæ. Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri Kadeco og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tóku á móti Fletcher ásamt hópi frá Landhelgisgæslunni.

Fletcher var búsettur á varnarsvæði bandaríska hersins, sem nú heitir Ásbrú það eina ár sem hann var á Íslandi. Hann varði bróðurparti tíma síns á herstöðinni og var markmið heimsóknarinnar að kynna hann aftur fyrir svæðinu og framtíðarskipulagi þess og -uppbyggingu. Pálmi Freyr hélt kynningu á K64 þróunaráætluninni, hlutverki Kadeco og uppbyggingaráformum á Ásbrú. Þá sagði Fletcher Pálma, Höllu og öðrum viðstöddum frá nauðlendingunni á Sólheimasandi og fleiri sögur af veru sinni á Íslandi.

„Það var okkur mikill heiður að fá bæði Fletcher og forseta Íslands til okkar í dag. Fletcher var búsettur hérna á svæðinu á árum áður og hefur ásýnd þess breyst töluvert frá því hann bjó hérna. Það var bæði dýrmætt og lærdómsríkt að fá að ræða við hann og mikill meðbyr í okkar vinnu að heyra hversu mikla trú hann hefur á framtíðaruppbyggingu svæðisins og þeim tækifærum sem leynast hér í nálægð við flugvöllinn. Á sama tíma minnir heimsókn hans okkur á það hversu mikill menningararfur Ásbrúar er og mikilvægi þess að halda þeim arfi á lofti,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdarstjóri Kadeco.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?