September 30, 2025
30/9/2025

Fannst frábært að búa á Ásbrú

Greg Fletcher, sem lenti flugvél á Sólheimasandi árið 1973 og bjargaði þannig lífi allra um borð, segir mjög jákvætt að verið sé að nýta byggingar sem áður tilheyrðu bandaríska hernum fyrir almenning á Íslandi. Fletcher var búsettur á herstöð bandaríska hersins á því svæði sem nú kallast Ásbrú í eitt ár á þeim tíma sem hann var starfandi fyrir Bandaríkjaher.

„Ég held að nálægðin við flugvöllinn skapi ótal tækifæri og ég vona að þetta gangi vel. Það sem ég hef séð hingað til [af svæðinu] er mjög tilkomumikið. Mér fannst frábært að búa hérna,“ segir Fletcher sem heimsótti skrifstofur Kadeco þegar hann dvaldi hér á landi fyrr í september.

Bandaríski herinn var með herstöð á því svæði sem nú nefnist Ásbrú og var Fletcher búsettur þar á þeim tíma sem hann dvaldi á Íslandi. Fletcher kveðst sjálfur hafa valið að fá að búa á Íslandi og líkaði dvölin vel.

Spurður um daglegt líf í herstöðinni segir Fletcher að lögð hafi verið áhersla á að búa til einhvers konar kunnuglegt samfélag fyrir íbúana. Sjálfur var hann búsettur í húsi með fleiri ungum mönnum, en starfsmenn hersins dvöldu í ólíkum húsakynnum eftir því hver staða þeirra var innan hersins og hvort þau voru ein á ferð eða með fjölskyldum.

Í frítíma sínum starfaði Fletcher sem fréttamaður fyrir fréttastöð bandaríska hersins, heimsótti líkamsræktarstöðina eða fór til Reykjavíkur með félögum sínum sem áttu bíl. Þá var vinsælt að heimsækja „Offisera klúbbinn" og lyfta glasi en klúbburinn var einn af fáum stöðum á landinu á þeim tíma þar sem hægt var að kaupa bjór.

Sem fyrr segir heimsótti Fletcher sínar fyrri heimaslóðir á Ásbrú í fyrsta skipti í hálfa öld og fékk þar, ásamt forseta Íslands og fleiri gestum, að heyra frá áformum um framtíðaruppbyggingu á Ásbrú. Þá tók Fletcher sjálfur til máls og sagði gestum frá deginum örlagaríka þegar hann nauðlenti Douglas Dakota-flugvél á Sólheimasandi.

Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri Kadeco tók á móti Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og Greg Fletcher í höfuðstöðvum Kadeco á Ásbrú.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?