November 21, 2025
21/11/2025

Gunnar Kristinn nýr markaðsstjóri Kadeco

Gunnar Kristinn Sigurðsson hefur tekið við stöðu markaðsstjóra Kadeco. Gunnar Kristinn hefur áralanga reynslu sem stjórnandi á sviði markaðsmála og viðskiptaþróunar. Hann kemur til Kadeco frá KPMG þar sem hann leiddi viðskiptaþróun og markaðsmál. Þar stýrði hann markaðsteymi fyrirtækisins og tók þátt í fjölmörgum verkefnum, meðal annars í tengslum við vöruþróun, stefnumótun, stafræna umbreytingu og sjálfbærni.

Áður starfaði Gunnar sem markaðsstjóri hjá Isavia þar sem hann leiddi stefnumótun og framkvæmd markaðs- og samskiptamála fyrir Keflavíkurflugvöll og aðrar rekstrareiningar fyrirtækisins. Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk meistaragráðu í alþjóðamarkaðsfræði í Strathclyde University í Skotlandi.    

„Það er frábært að fá inn mann eins og Gunnar til liðs við okkur hjá Kadeco. Hann býr yfir áralangri reynslu af markaðsmálum og viðskiptaþróun en um er að ræða nýja stöðu hjá Kadeco. Markmiðið er að auka sýnileika og byggja upp K64 þróunaráætlunina. Hjá okkur er alltaf nóg að gera og síðustu ár hafa að miklu leyti farið í mikilvægt samráð og gerð K64 þróunaráætlunarinnar. Næsta ár verður viðburðaríkt og við hjá Kadeco hlökkum mikið til að starfa með Gunnari,“ segir Pálmi Freyr Randversson.   

„Það er spennandi verkefni að fá að taka við markaðsmálum Kadeco. K64 þróunaráætlunin er metnaðarfull og yfirgripsmikil áætlun sem nær yfir stórt svæði og það eru gífurleg tækifæri í að efla og byggja upp svæðið í kring um Keflavíkurflugvöll,“ segir Gunnar Kristinn.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?