July 17, 2024
17/7/2024

Tímamótasamningur um íbúðauppbyggingu á Ásbrú

Í dag skrifuðu Kadeco, Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðarbyggðar á Suðurbrautarreit á Ásbrú. Um er að ræða fyrstu húsnæðisuppbyggingu á Ásbrú eftir brotthvarf Bandaríkjahers.

Suðurbrautarreitur er miðsvæðis á Ásbrú, um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli og kveður samningurinn á um að á reitnum verði byggðar að lágmarki 150 íbúðir. Samið var um að Stofnhús myndi greiða Kadeco 150 milljónir króna fyrir byggingarréttinn og mun Reykjanesbær meðal annars koma að uppbyggingu nýrra gatna í tengslum við verkefnið.

Jónas Halldórsson, forstjóri Stofnhúss, Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, tókust í hendur eftir undirritun samningsins.


Deiliskipulag um svæðið verður gert á grunni nýs rammaskipulags fyrir Ásbrú þar sem gert er ráð fyrir lágreistri en fjölbreyttri byggð fjölbýlishúsa í anda þess byggðamynsturs sem fyrir er á svæðinu. Áhersla er meðal annars á blágrænar ofanvatnslausnir og grænt og barnvænt umhverfi. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fyrir reitinn verði kynnt og auglýst næsta vetur og þess er vænst að uppbygging geti hafist fljótlega í kjölfarið.

Skissa af mögulegri framtíðarbyggð á Suðurbrautarreit, teikning Alta ráðgjöf.


Með þessum samningi er brotið blað í sögu Ásbrúar, en um er að ræða fyrstu uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á svæðinu frá því að varnarliðið yfirgaf svæðið árið 2006. Verið er að taka stórt skref í skipulagsmálum í Reykjanesbæ, en samkvæmt aðalskipulagi er Ásbrú helsta uppbyggingarsvæði bæjarins á komandi árum. Í nýju rammaskipulagi Ásbrúar, sem nú er í auglýsingu, er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi upp í allt að 14 þúsund til ársins 2050, en það er álíka og íbúafjöldi Mosfellsbæjar í dag.

„Þessi samningur er mikið fagnaðarefni en með honum er stigið stórt skref í uppbyggingu á Ásbrú. Áætlanir um framtíðaruppbyggingu á svæðinu eru mjög metnaðarfullar enda höfum við fundið fyrir miklum áhuga úr ýmsum áttum á svæðinu og það er einstaklega ánægjulegt að við getum lagt okkar að mörkum í framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Mikil þörf er á íbúðahúsnæði á Reykjanesi og með þessari þróun eykst einnig grundvöllur fyrir ýmis konar þjónustu á svæðinu,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.

Ásbrú er skilgreind sem helsta uppbyggingarsvæði Reykjanesbæjar á komandi árum.


Uppbygging á Ásbrú er liður í nýrri  þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, K64, þar sem horft er fram til ársins 2050. Þróunaráætlunin er heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?