
Haustið var heldur betur viðburðarríkt hjá starfsfólki Kadeco og greinilegt er að mikill áhugi er á K64 þróunaráætluninni og þeirri uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu. Hér á eftir verður farið stuttlega yfir helstu heimsóknir og fræðsluviðburði sem við tókum þátt í.
Starfsfólk Kadeco á ferð og flugi

Stjórn Kadeco ferðaðist til Amsterdam í október en tilgangur ferðarinnar var að heimsækja þróunarfélag Schiphol flugvallar (SADC) sem á margt sameiginlegt með Kadeco og hefur verið rekið með góðum árangri í hátt í fjóra áratugi. Stjórnin skoðaði meðal annars hvernig flugvallarsvæðið hefur þróast og hvernig stór iðnaðarsvæði njóta góðs af nálægð við flugvöllinn. SADC er samstarfsvettvangur sveitarfélaga, Amsterdam borgar, flugvallarins og Norður Hollands sýslu.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, heimsótti þrjátíu ára afmælisráðstefnu IAAE (alþjóðasamtaka flugvallarstjórnanda) og ræddi þar um K64 þróunaráætlunina og uppbyggingu á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar. Tók hann einnig þátt í pallborði um framtíð flugvallarreksturs í síbreytilegum heimi.
Elín Guðnadóttir, yfirverkefnastjóri Kadeco, tók þátt í pallborði á vegum Real Asset Media í Expo Real í Munchen í byrjun október. Þetta er ein stærsta fasteignarsýning og ráðstefna í Evrópu. Elín ræddi um mikilvægi þess að taka sjálfbærni og umhverfissjónarmið með í reikninginn frá byrjun áætlunargerðar og þau fjölmörgu tækifæri sem það býður upp á á K64 flugvallarsvæðinu. Hér má lesa viðtal við Elínu frá ráðstefnunni.
Elín Guðnadóttir og Samúel Torfi Pétursson sóttu Airport City Developers Forum sem haldið var á Munchen flugvallarsvæði í byrjun september. Er um að ræða hóp fagfólks í flugvallarþróun og fasteignar- og iðnaðarþróun á flugvallarsvæðum sem hittist árlega. Í allri flugvallarþróun er mikilvægt að fylgjast með því sem á sér stað í sambærilegum verkefnum víða um heim og leggur Kadeco sérstaka áherslu á vera virkur þátttakandi í samtali milli alþjóðlegra sérfræðinga. Þetta stuðlar að nýsköpun og betri starfsháttum á sviðinu. Hér má lesa nánar um ráðstefnuna.
Góðir gestir á skrifstofu Kadeco

Í október tókum við ásamt Isavia á móti nýrri skrifstofu skipulags- og byggingarmála Reykjavíkurborgar á skrifstofu Kadeco. Markmiðið var að segja þeim frá starfsemi og framtíðaráætlunum fyrir Keflavíkurflugvöll og nærsvæði. Samúel Torfi Pétursson þróunarstjóri og Elín Guðnadóttir yfirverkefnastjóri kynntu fyrir hönd Kadeco K64 þróunaráætlunina og framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Þá fékk K64 þróunaráætlunin viðurkenningu sem eitt af tíu bestu framkvæmdarverkefnum á alþjóðavísu, í úttekt alþjóðlega tímaritsins Real FDI. Tímaritið fylgist með fjárfestingum og þróunarverkefnum á fasteigna- og iðnaðarsviði. Viðurkenningin staðfestir að K64 er í fremstu röð þegar kemur að árangursríkri þróun á flugvallarsvæðum.