July 7, 2021
7/7/2021

Ábendingar frá íbúum nýtast við gerð þróunaráætlunar

Farið hefur verið yfir niðurstöður könnunar sem Kadeco stóð fyrir í vor og var sérstaklega beint til þeirra sem búa, starfa eða reka fyrirtæki á Suðurnesjum. Könnunin er liður í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila um framtíðarþróun svæðisins, en Kadeco stendur um þessar mundir fyrir samkeppni um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar fram til ársins 2050. Ráðgjafarfyrirtækið Alta hélt utan um spurningakönnunina og vann greinargerð út frá niðurstöðum hennar sem og niðurstöðum fundar með ráðgjafaráði sem samanstendur af fulltrúum Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Heklunnar atvinnuþróunarfélags, hafnaryfirvalda og lögreglu og slökkviliðs á svæðinu. Greinargerðin er hluti af þeim gögnum sem þátttakendur í samkeppni um þróunaráætlun hafa til upplýsingar og hliðsjónar í sinni vinnu.

Samráð við nærsamfélagið hefur gefið góða innsýn í þau tækifæri og áskoranir sem Suðurnesin standa frammi fyrir. Íbúar eru áhugasamir um framtíðarþróun svæðisins og ábendingar þeirra eru í mörgum atriðum samhljóma meginmarkmiðum samkeppninnar um nýja þróunaráætlun, að auka fjölbreytni í atvinnulífi og þjónustu á svæðinu.

Flestir telja mikil tækifæri felast í nálægðinni við alþjóðaflugvöll og stórskipahöfn, en margir nefndu að starfsemi þeim tengd gæti verið mun fjölbreyttari og þannig mætti sporna við einsleitni á vinnumarkaði. Fólk nefndi einnig að jákvætt væri að fjölga tækifærum til afþreyingar, íþróttaiðkunar og menningarneyslu og mörg kölluðu eftir fleiri almenningsgörðum, gönguleiðum og svæðum til að njóta útivistar og mannlífs. Betri tengingar milli bæja og bæjarhluta, bæði með göngustígum og almenningssamgöngum, sem og bættar almenningssamgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu voru einnig oft nefndar. Margir töluðu um að það væri jákvætt og einn af styrkleikum svæðisins að þar væri fjölmenningarsamfélag. Boðið var upp á að svara spurningakönnun um svæðið á íslensku, ensku og pólsku og barst fjöldi svara á öllum tungumálum.

Fimm fjölþjóðleg hönnunarteymi komust áfram eftir forval í samkeppni Kadeco um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar og vinna nú áfram að tillögum sem valið verður úr. Gert er ráð fyrir að tilkynna um sigurvegara og vinningstillögu samkeppninnar undir lok ársins 2021, en í framhaldi verður svo unnið eftir þeirri tillögu að höfðu samráði við íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu.

Hægt er að kynna sér greinargerð um niðurstöður íbúasamráðs nánar hér.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?