August 22, 2025
22/8/2025

BM Vallá reisir nýja steypustöð á Tæknivöllum

Íslenski steypuframleiðandinn BM Vallá er að reisa nýja steypustöð á Ásbrú í Reykjanesbæ. Steypustöðin er staðsett á Tæknivöllum á lóð sem BM Vallá fékk nýverið úthlutað frá Kadeco og mun verða tekin í notkun í haust.

Nýja steypustöðin er hönnuð til að lágmarka umhverfisáhrif frá framleiðslunni og mun styðja við þá miklu uppbyggingu sem framundan er á Suðurnesjum. Háþróuð endurvinnslustöð endurvinnur afgangssteypu og allt skolvatn sem fellur til frá steypustöðinni, steypubílum og dælum. Þessi búnaður og tækni gerir að verkum að mögulegt verður að endurnýta hráefnin að fullu í framleiðsluferlinu ásamt því að tryggja að engin óæskileg úrgangsefni fari í fráveitukerfi Reykjanesbæjar.

„Við hjá BM Vallá höfum mikla trú á framtíðarþróun Reykjanesbæjar og hlökkum til að styðja við þá miklu uppbyggingu sem framundan er. Nýja steypustöðin á Ásbrú sameinar gæði, skilvirkni og háþróaða framleiðslutækni sem eflir þjónustu okkar við byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Með sjálfbærni að leiðarljósi tryggjum við að afgangssteypa og skolvatn nýtist að fullu, drögum úr sóun, minnkum kolefnissporið og bjóðum vistvænni steypu fyrir framtíðina,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár.

„Það er afar ánægjulegt að BM Vallá sjái kosti þess að fjárfesta á Suðurnesjum, enda hafa sjálfbærni og umhverfisáherslur verið lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins og það hefur hlotið tvær viðurkenningar á sviði umhverfismála fyrir framlag sitt. BM Vallá býður meðal annars upp á vistvænni steypu, með allt að 45% minna kolefnisspor en sambærileg steypa samkvæmt kröfum byggingarreglugerðar,“ segir Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri Kadeco.

Sem fyrr segir verður hin nýja steypustöð staðsett á Tæknivöllum, en í þróunaráætlun Kadeco, K64, er svæðið hugsað fyrir léttan iðnað og fjölbreytt fyrirtæki sem meðal annars geta þjónustað önnur fyrirtæki á Suðurnesjum. BM Vallá gerir ráð fyrir að stöðin taki til starfa í september eða október.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?