March 9, 2023
9/3/2023

K64 - Kadeco kynnir nýja þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar

Kadeco kynnti í dag K64, nýja þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, við hátíðlega athöfn þar sem nýtt nafn og merki þróunaráætlunarinnar var einnig afhjúpað. Þróunaráætlunin er heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.

Nafnið K64 var valið sem regnhlífarhugtak yfir þann fjölda verkefna sem hrint verður í framkvæmd á næstu árum og áratugum, en nafnið vísar til einstakrar staðsetningar Suðurnesja, á 64. breiddargráðu.

Á fundinum fluttu ávörp þau Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri og Steinunn Sigvaldadóttir, formaður stjórnar Kadeco. Þá var Anouk Kuitenbrouwer, arkitekt og eigandi hjá KCAP, arkitekta- og skipulagsstofunni sem varð hlutskörpust í alþjóðlegri samkeppni Kadeco um þróun svæðisins, með erindi.

Þróunaráætlunin nær til ársins 2050 en fyrstu skrefin verða tekin strax. Má þar nefna þróun grænna iðngarða við Helguvíkurhöfn, bættar almenningssamgöngur á milli flugvallar og höfuðborgar, tilraunir með eftirspurnardrifnar almenningssamgöngur og uppbygging íbúða á Ásbrú.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco:
„Þróunaráætlunin var unnin í afar umfangsmiklu samráði með hagaðilum á svæðinu og víðar sem skilar afurð sem er í takti við væntingar samfélagsins. Þetta er metnaðarfull áætlun og aðlaðandi framtíðarsýn. Margir þurfa að leggjast saman á árarnar til að þessi sýn geti orðið að veruleika, en ég er sannfærður um að afraksturinn sé þess virði og vel það. Við hjá Kadeco og K64 hlökkum til að takast á við verkefni framtíðarinnar með fólkinu á Suðurnesjum.“

Hægt er að kynna sér nýja þróunaráætlun nánar á www.k64.is

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?