October 8, 2025
10/10/2025

Skapar tækifæri til vaxtar

Fyrirtækin sem starfa á K64 kjarnasvæðunum eru fjölmörg og verkefnin sem þau takast á við ólík. Á næstu misseri munum við birta stuttar umfjallanir um fyrirtækin á svæðinu með það að markmiði að kynna þá fjölbreyttu starfsemi sem finna má á Suðurnesjum.

Líftæknifyrirtækið Algalíf framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr örþörungnum Haematococcus pluvialis og er lang stærsta fyrirtækið í örþörungaframleiðslu á Íslandi. Algalíf hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir hágæða astaxanthín, sem er framleitt með umhverfisvænum orkugjöfum í stýrðu hátækni umhverfi innanhúss í glænýju 13.000 m² húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Starfsmenn eru nú um áttatíu og þar af er um fjórðungur með vísindamenntun. Þörungarnir eru ræktaðir í 500 kílómetra löngum glerrörum með um 30.000 sérhönnuðum ljósum sem keyrð eru á grænni orku. Á síðustu árum hefur fyrirtækið þrefaldað framleiðslugetu sína með stækkun verksmiðjunnar sem gerir Algalíf að stærsta framleiðanda á náttúrlegu astaxanthíni í Evrópu og einum þeim stærsta í heimi.

Þörungar eru ræktaðir í 500 kílómetra löngum glerrörum

Algalíf á Íslandi var stofnað árið 2012 og var markmiðið í upphafi að finna þörung sem hægt væri að rækta á hagkvæman hátt og gæfi af sér verðmætar afurðir. Aðstæður hérlendis eru að flestu leyti mjög góðar fyrir örþörungaframleiðslu, nóg til af vatni og grænni raforku á sanngjörnu verði. Lágt og jafnt hitastig hér á landi, með mildum vetrum og svölum sumrum, auðveldar jafnframt stýringu í framleiðslunni. Algalíf nýtir sér einnig styrkleika Íslands við sölu og markaðssetningu og er leiðandi í alþjóðlegri samkeppni á sínu sviði. Stuðningur í bæjarfélaginu er einnig mikilvægur kostur fyrir nýsköpunarfyrirtæki eins og Algalíf.  

K64 styður við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu

Að sögn Orra Björnssonar, forstjóra Algalífs, hefur K64 þróunaráætlunin haft mjög jákvæð áhrif á vöxt og rekstur Algalífs.

„Mikilvægast við K64 þróunaráætlunina er að hún styður við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Suðurnesjunum. Áætlunin skapar tækifæri fyrir fyrirtæki til að vaxa og þróast í öflugu samfélagi þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, þekkingu og samvinnu,“ segir Orri.

„Algalíf leggur mikla áherslu á gæði, vísindi, sjálfbærni og íslenskan uppruna í öllu sölu- og markaðsstarfi. Sú staðreynd að þörungarnir séu ræktaðir á umhverfisvænan hátt með innlendum orkugjöfum í hreinu umhverfi er ein af meginstoðum markaðssetningarinnar. Markaðslegir styrkleikar Íslands hafa skipt sköpum í því að skapa Algalíf sess sem leiðandi fyrirtæki í harðri alþjóðlegri samkeppni á sínu svið."

Starfsstöðvar Algalífs á Ásbrú

Hægt er að lesa meira um Algalíf á algalif.is

K64 er þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, þar sem sett er fram heildstæð sýn á uppbyggingu svæðisins fram til ársins 2050. Kadeco hefur leitt vinnu við gerð áætlunarinnar sem byggir á samvinnu sveitarfélaga og hagsmunaaðila um að skapa sterka sýn með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það auðveldar uppbyggingu og eykur hagsæld meðal íbúa og sveitarfélaga á svæðinu.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?